Ljósmyndasýning um Korsíku eftir Guðrúnu Önnu Matthíasdóttur

Í tilefni af hátíðinni Keimur 2021 og með atbeina Korsíska íslenska bandalagsins býður Alliance Française í Reykjavík upp á ljósmyndasýningu um Korsíku eftir Guðrúnu Önnu Matthíasdóttur frá 1. til og með 17. desember 2021 í Tryggvagötu 8.

Opnun sýningarinnar verður föstudaginn 3. desember kl. 19:30 í tilefni af kvöldinu tileinkað mat og vín frá Korsíku í viðurvist kokksins Simon Andrews (skráning nauðsynleg)

Korsíka er einstaklega falleg eyja, og í daglegu tali oftast kölluð „Eyja fegurðar“. Landslag eyjunnar er afar fjölbreytt; skógivaxnir  fjallgarðar, marglitir klettadrangar sem stinga sér lóðréttir ofan í hafið og  hvítar sandstrendur. Guðrún Anna hefur reynt að fanga þessa fjölbreytni í myndunum sínum. Nokkrar ljósmyndir verða sýndar samhliða myndum frá Íslandi.

  • frá 1. til og með 17. desember 2021

  • á virkum dögum kl. 13-18 (til kl. 16 föstudaginn 17. desember) og á laugardögum kl. 10-12

  • Opnun fostudaginn 3. desember kl. 19:30 (skráning nauðsynleg)
  • Alliance Française, Tryggvagötu 8, 2. hæð

Guðrún Anna Matthíasdóttir. Ég er fædd og uppalin í Reykjavík. Ætlun mín var alltaf að nema einhverskonar sköpun en eftir grunnnám í myndlist, urðu örlögin til þess að ég skipti yfir í frönskunám. Það nám opnaði mér margar nýjar leiðir m.a. vinnu í ferðaþjónustu og flugfreyjustörf.

Að kynnast framandi menningarheimum og landslagi, auk þess að vinna með börnum sem kennari í nokkur á, hefur gefið mér mikið og jafnvel aukið enn á þörfina til sköpunar; mála, skrifa og taka ljósmyndir.

Eftir að ég flutti ásamt manninum mínum til Frakklands, sneri ég mér af fullum krafti að listinni. Þar hef ég tekið þátt í nokkrum sýningum, bæði ljósmynda- og málverkasýningum, aðallega á Korsíku, sem hefur verið heimili okkar síðastliðin ellefu ár.

Ég hef einnig gefið út tvær barnabækur um „Agnarögn“ þar sem textinn er á þremur tungumálum frönsku, íslensku og korsísku og er franskan þar milliliður.

Ég er í stjórn Korsíska íslenska bandalagsins. Félagið var stofnað 2015 og er meginmarkmið þess að stuðla að menningarlegum tengslum milli eyjanna tveggja, eins og til dæmis þessi sýning í samstarfi við Alliance Francaise Reykjavík. Flestir viðburðirnir hafa hingað til átt sér stað á Korsíku en undirbúningur er þegar hafin fyrir næsta viðburð á Íslandi.