Aðalfundur stjórnar Alliance Française í Reykjavik var haldinn miðvikudaginn 10. júní í húsakynnum félagsins í Tryggvagötu 8 að viðstöddum sendiherra Frakklands á Íslandi, Graham Paul og Sophie Delporte sendiráðunaut.
Framkvæmdastjóri Alliance Française í Reykjavík, Jean-François Rochard fór yfir ársskýrslu félagsins fyrir árið 2019. Starfsemi félagsins felst aðallega í kennslu í frönsku og heldur það úti fjölbreyttum frönskunámskeiðum fyrir alla aldurshópa. Menningarstarfsemi félagsins felst í skipulagningu viðburða í samstarfi við franska sendiráðið á Íslandi. Þeir viðburðir sem hafa fest sig í sessi eru Franska kvikmyndahátíðin, Keimur, sem er hátíð helguð franskri matargerð og Hátíð franskrar tungu, sem haldin er í mars ár hvert. Alliance francaise í Reykjavík heldur utan um myndarlegt miðlaver með frönsku efni, það eina sinnar tegundar á Íslandi, en þar er að finna meira en 4000 gögn (bækur, myndasögur, DVD og tímarit)
Til þess að mæta breyttum tímum hefur félagið ráðist í ýmsar breytingar á undanförnum misserum og ríkir mikil ánægja innan stjórnar með störf framkvæmdastjórans Jean-François Rochard og verkefnastjórans Florent Gast. Þakkaði forseti félagsins, Guðlaug M. Jakobsdóttir, þeim sérstaklega fyrir vel unnin störf. Tveir stjórnarmenn drógu sig úr stjórn, Philippe Blanc gjaldkeri og Tryggvi Davíðsson, en í stað þeirra taka sæti Eyjólfur Sigurðsson og Sara Regal. Stjórnina skipa nú Guðlaug M Jakobsdóttir forseti, Bertrand Lauth, Eyjólfur Sigurðsson, Jóhanna Björk Guðjónsdóttir ritari, Sara Regal, Sigríður Snævarr og Sigrún Ingibjörg Gísladóttir.
Stjórn félagsins 2020-2021
- Forseti: Guðlaug M Jakobsdóttir, forstöðumaður alþjóðaskrifstofu Háskólans í Reykjavík
- Ritari: Jóhanna Björk Guðjónsdóttir, frönskukennari
- Bertrand Lauth, barna- og unglingageðlæknir
- Eyjólfur Sigurðsson, frönskukennari
- Sara Regal, viðburðastjórnandi
- Sigríður Snævarr, sendiherra
- Sigrún Gísladóttir, lögmaður