Í tengslum við Hátíð franskrar tungu 2020 munu franska sendiráðið, Alliance Française í Reykjavík og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur kynna þrjár afrískar stórmyndir sem gerast á okkar dögum. Myndirnar verða allar sýndar í Veröld með atbeina Institut Français.

Fyrsta myndin er Timbúktú eftir Abderrhamane Sissakó.

Íslamistar ráðast inn í borgina Timbúktú (Mali) og koma þar á sjaríalögum. Þeir banna tónlist, fótbolta, sígarettur, knýja fram nauðungarhjónabönd, ofsækja konur og koma á fót skyndidómstólum sem kveða upp rangláta og fáránlega dóma. Þótt þeir bæli niður af hörku alla andstöðu þá andæfir fólk þeim af miklu hugrekki, oft með vísun í annars konar skilning á íslam.

Kidane er bóndi af þjóð Túarega og býr í eyðimörkinni með konu sinni og dóttur. Til að byrja með eru þau látin í friði en fyrr en varir standa þau frammi fyrir nýjum íslömskum lögum, eftir útistöður við annan íbúa.

    • Myndin hlaut dómaraverðlaunin í Cannes, Césarverðlaunin sem besta myndin og fyrir bestu leikstjórn og New York Times setti hana í 12. sæti yfir bestu kvikmyndir 21. aldar, það sem af er.
    • Myndin er á frönsku, arabísku, bambara og tamasheq en sýnd með enskum texta.
    • Lengd : 97 mínútur.
    • Allir velkomnir.